top of page

Ný tækifæri

Lokum á Hjalteyri - Opnum á Akureyri

Nú eru miklar breytingar framundan hjá okkur í 600Klifur. Við höfum hingað til rekið klifurstarfsemi okkar í húsnæði á Hjalteyri sem við deildum með Kraftlyftingafélagi Akureyrar.  Nú höfum við fengið nýtt húsnæði á Akureyri og stefnum að því að opna þar nýjan klifursal á næstu misserum sem mun hýsa alla okkar starfsemi. Við sjáum okkur ekki fært að starfa áfram í salnum á Hjalteyri og höfum við því tekið þá ákvörðun að hætta allri starfsemi þar. Við teljum okkur hafa byggt upp gott starf og við höfum séð aukinn áhuga og aðsókn í klifur á síðustu tveimur árum. Við hlökkum til að halda þeirri vegferð áfram í nýju húsnæði. Við munum nú einbeita okkur að nýju verkefni og setja alla okkar orku í uppbyggingu nýs klifursals á Akureyri. 

 

600Norður (sem sér um 600Klifur) hefur selt timburverkið á Hjalteyri og mun klifurveggurinn því standa þar áfram. Okkur þykir vert að ítreka að frá og með nú mun 600Klifur að engu leyti koma að starfsemi klifurveggjarins á Hjalteyri, þar með talið uppsetningu leiða, æfingastarfi, fjölskylduklifri, móttöku hópa eða annarri þjónustu.

 

Á sama tíma og við lokum þessum kafla í sögu félagsins horfum við björtum augum til framtíðar. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar í nýju húsnæði en þetta er stórt og spennandi verkefni og mikil vinna fyrir höndum.

Við hlökkum til að deila með ykkur frekari fréttum af þessu verkefni á komandi vikum. 

 

Gjafabréf sem eru í umferð verður hægt að nýta þegar nýji klifursalurinn opnar. Skiptakort í umferð er hægt að nýta áfram hjá Kraftlyftingafélagi Akureyrar á Hjalteyri eða sækja og nýta í nýja klifursalnum okkar þegar hann opnar. Við bendum þeim sem hafa frekari spurningar á að hafa samband í gegnum klifur@600north.is. Við svörum ykkur eins fljótt og unnt er.

1
2

Fréttir

bottom of page